All posts by Prestarnir skrifa

Vígsla síðasta sunnudag. Innsetning 29. janúar

Síðasta sunnudag, 15. janúar, var María Rut Baldursdóttir vígð til embættis í Bjarnanesprestakalli. En auk hennar var Erla Björk Jónsdóttir vígð til héraðsprests í Austurlandsprófastsdæmi. Sr. Agnes M. Sigurðardóttir sá um vígsluna og sr. Stígur var einn af vígsluvottum. Athöfnin var virkilega hátíðleg í alla staði og má segja hún boði gott uppá framhaldið.

Það fór vel á með sr. Maríu og sr. Stíg eftir vígslu

Sr. Stígur og sr. María þekkjast úr guðfræðináminu og eru þau bæði virkilega spennt fyrir samstarfinu en sr. María Rut hefur hafið störf og því er hægt að leita til hennar ef hennar návist er óskað.

Þess má geta að þann 29. janúar verða kollegarnir sett formlega í embætti í messu í Hafnarkirkju. Verður þau auglýst síðar.

Hvað gerðist í Bjarnanesprestakalli á árinu 2016. Árið í tölum.

Nú er árið 2016 á enda og því er gott tilefni að horfa yfir farinn veg. Hvernig var árið 2016 í Bjarnanesprestakalli? Það er ekki hægt að segja annað en nóg hafi verið um að vera, nýr sóknarprestur skipaður, prestur valin og nýr organisti ráðinn. Hafnarkirkja og Bjarnaneskirkja fögnuðu stórafmælum með ýmsum viðburðum og hátíðarmessum, og svo mætti lengi telja.

Messur voru reglulega yfir allt árið en alla jafna voru þær á hálfsmánaðarfresti. Hafnarkirkja var vel nýtt til ýmissa starfa, þ.á.m. kórastarf, foreldramorgna og félagsstarfa.

Kirkjulegar athafnir (frátöldum messum) voru með mesta móti á árinu og má þá sérstaklega nefna útfarir. Hér fyrir neðan má sjá tölulegt yfirlit yfir þá viðburði.

  • Skírnir: 19
  • Hjónavígslur: 13
  • Útfarir: 25
  • Fermingar: 27 (börn)

Eins og sjá má voru útfarir margar og hafði fjölgað gríðarlega frá síðasta ári en þá voru þær 14. Það er þó gleðilegt að skírnum fjölgaði frá árinu 2015 voru þær aðeins 10 enda fæddust óvenju fá börn á því ári.

Hægt er að bera saman fleiri tölur frá árinu áður með því að smella hér.

Þess má geta að hér er ekki um tæmandi lista að ræða því aðeins er farið í kirkjubækur prestakallsins. Athafnir eins og endurnýjun hjúskaparheita kemur ekki hér fram né athafnir sem framkvæmdar voru af öðrum prestum.

Þorláksmessa í Hafnarkirkju

Á Þorláksmessu verður opið hús í Hafnarkirkju frá klukkan 16 til 18. Heitt verður á könnunni og kerti seld fyrir Hjálparstarf kirkjunnar. Guðlaug Hestnes og Jörg Sondermann leika jólalög fjórhent á píanóið. Komið og eigið notalega stund í kirkjunni okkar.

Einnig eru börnin hvött til að skila inn söfnunarbaukunum sem þau fengu í sunnudagaskólanum fyrr í vetur. Baukar munu einnig liggja frammi og þeir sem eru aflögufærir geta sett nokkrar krónur í þá.

Tré brotnaði í Stafafellskirkjugarði

Í hvassviðrinu um daginn gerðist það að tré í suðvestur horni kirkjugarðsins féll. Brotnaði tréð við jörðu og féll útfyrir garðinn. Sem betur fer varð ekkert tjón nema á girðingunni eins og sést á myndunum.

Þegar tréið var fjarlægt var ákveðið um leið að fjarlægja tré sem var norðan við kirkjuna enda myndi það valda miklum skemmdum ef það myndi falla á kirkjuna. Við grófa talningu á aldurshringjum á því tréi kom í ljós að það var um 80 ára.

Hér má sjá myndir af aðkomunni.

Flickr Album Gallery Powered By: Weblizar

 

Nýr prestur í Bjarnanesprestakalli

Síðastliðinn föstudag kom kjörnefnd Bjarnanesprestkalls saman til fundar en þá höfðu umsækjendur um stöðu prests í prestakallinu verið boðaðir í viðtöl. Umsækjendurnir fengu að kynna sig og sín mál, og í framhaldinu fór fram leynileg kosning. Niðurstöðurnar voru svo sendar til biskups til samþykktar.

maria-rut
María Rut Baldursdóttir

Skemmst er frá því að segja að biskup hefur samþykkt að ráða skuli Maríu Rut Baldursdóttur í stöðu prests í hálfri stöðu og mun hún hefja störf í byrjun næsta árs. Um er að ræða viss tímamót því María Rut verður fyrsti skipaði kvenprestur Bjarnanesprestakalls og er það fagnaðarefni.

Sóknarnefndir, sóknarprestur og starfsfólk bjóða Maríu Rut velkomna til starfa og hlakka til að starfa með henni næstu árin. Um leið óska sóknarnefndir hinum umsækjendunum velfarnaðar í þeirra störfum.

Helgihald um jól og áramót – tvær messur falla niður

Nú er jólahelgihald Bjarnanesprestakalls klárt. Verður það með örlitlu breyttu sniði en vegna óviðráðanlegra orsaka falla tvær messur niður. Miðnæturmessa í Hafnarkirkju fellur niður sem og guðsþjónusta í Kálfafellsstaðarkirkju. Suðursveitungum er því boðað sækja messu annað hvort í Hofskirkju eða Brunnhólskirkju. Er beðist innilegrar afsökunar á þessum niðurfellingum.

Helgihald kirknanna má sjá hér fyrir neðan.

jol2016-2

Aðventustundir í Bjarnanesprestakalli

Nú er aðventan á næsta leiti og henni fylgja aðventustundir í öllum sóknum. Á aðventustundunum verða sungnir jólasálmar og lög, kveikt á aðventukertum og hlustað á orð frá ræðumanni.

Unnið er að því að finna ræðumenn og munu nöfn þeirra birtast í næstu blöðum Eystrahorns.

Hér fyrir neðan má sjá tíma- og dagsetningar stundanna, hægt er að smella á myndina til að fá hana stærri.

adventustundir2016

Krossinn kominn upp á ný

nýi krossinnÍ hádeginu í dag var komið að því að ljósakrossinn á turni Hafnarkirkju var tendraður á ný. Í maí síðastliðnum var hann tekinn niður þar sem mikið ryð var farið að safnast saman á honum. Þegar hann var tekinn niður kom í ljós að hann var mun verr farinn en áður var haldið. Vegna þess ílengdist verkið en ákveðið var einnig að skipta um ljósabúnað og eru nú komnar LED lýsing og þeir sem til þekkja segjast merkja mun á lýsingunni. Var það Ragnar Pétursson frá Þoreirsstöðum í Lóni sá um að gera krossinn upp, ásamt að skipta um ljósin, og vann hann verkið listavel eins og sjá má hér. Við uppsetninguna fékk hann góða hjálp eins og hægt er að sjá myndunum hér fyrir neðan.

Flickr Album Gallery Powered By: Weblizar