Category Archives: Hafnarsókn

Kirkjur Íslands komið út

Fyrir stuttu kom út nýtt bindi í ritröðinni Kirkjur Íslands. Í þessari ritröð er fjallað um friðaðar kirkjur um allt land þar sem horft er sérstaklega til byggingarlistar, stílfræði og þjóðminjavörslu.

Í þessu bindi eru teknar fyrir kirkjur á Suður og Suðausturlandi og eigum við í Bjarnanesprestakalli fjórar kirkjur. Þessar kirkjur eru Stafafellskirkja, Brunnhólskirkja, Kálfafellsstaðarkirkja og Hofskirkja. Margar áhugaverðar og skemmtilegar lýsingar koma þar fram um kirkjurnar og eru því allir hvattir til að líta í þessa fallegu bók.

Guðshús í prestakallinu í gegnum aldirnar

Það er ljóst að íbúar Austur – Skaftafellssýslu hafa lengi verið trúaðir. Fyrir nokkrum misserum afhenti Sigurður Hannesson prestakallinu lista yfir þau Guðshús sem reist hafa verið í sýslunni. Um er að ræða 35 hús á fjölmörgum bæjum í allri sýslunni og er gaman að renna yfir listann og sjá hvar staðið hafa hús sem notuð hafa verið til tilbeiðslu og annarra athafna.

Listann er að finna undir flipanum Um prestakallið en það má einnig smella hér til að sjá listann.

Fyrsti sláttur ársins 2014 í dag

Það veitir alltaf á gott þegar maður heyrir í slátturvélinni í kirkjugarðinum á Höfn, það er merki um að það sé komið sumar. Nú í dag var fyrsti sláttur í garðinum, eins og sést á myndinni, og er það rúmlega viku fyrr en í fyrra. Garðurinn kemur vel undan vetri og lítur vel út. Fólk er hvatt til að hreinsa og snyrta leiði ástvina sinna eftir veturinn. Þess má geta að búið er að koma upp fiskikari fyrir garðaúrgang framan við garðinn þannig að það þarf ekki að taka hann með sér. Einnig er krani með rennandi vatni og garðkanna á staðnum þannig að auðvelt er vökva sumarblómin sem komið er fyrir á leiðunum.

Reglur um umgengni Hafnarkirkjugarðs má sjá hér.

Íþróttamessa

Nú er vetrarstarfi Sindra að ljúka og sumarstarfið að byrja og vegna þess verður íþróttamessa í Hafnarkirkju sunnudaginn 11. maí klukkan 14:00. Íþróttakappar á öllum aldri munu aðstoða í messunni og Óli Stefán Flóventsson mun sjá um hugleiðingu.

Allir eru hvattir til að mæta í Sindrabúning eða einhverju rauðu.

Sýnum samhug, biðjum saman og fyrir íþróttafólkinu okkar í Sindra.

Hvað var um að vera í prestakallinu í apríl

Í ár verður apríl eflaust stærsti mánuður prestakallsins enda var nóg um að vera þann mánuðinn. Fermingarnar byrjuðu í 13. apríl á pálmasunnudegi og viku seinna voru páskarnir. Messur og kyrrðarstundir voru alls 15 í apríl mánuði. Þess má til gaman og fróðleiks geta að það komu 1426 manns í þessar athafnir og 252 komu til altaris.

Ein útför var í mánuðinum og ein hjón gefin saman. Páskahátíðin er góð hátíð til að taka börn inn í kirkju Krists enda voru sjö börn skírð í apríl. Hér fyrir neðan er hægt að sjá nöfn þeirra sem voru skírð en einnig þeirra sem létu gefa sig saman og þess sem lést.

Andlát
– Benedikt Stefánsson, Hvalnesi

Skírn
– Katla
Foreldrar: Hjalti Þór og Guðrún
– Sigurður Brynjar
Foreldrar: Torfi og Guðbjörg Anna
– Valdimar Leó
Foreldrar: Þóra Björg og Gísli Karl
– Sara Mekkín
Foreldrar: Elva Björk og Birgir Fannar
– Þórdís Eva
Foreldrar: Nanna Halldóra og Friðrik
– Skúli Baldur
Foreldrar: Jóna Stína og Sigurjón Magnús
– Fjölnir Freyr
Foreldrar: Vésteinn og Þórey

Gifting
– Stefanía Anna og Þröstur

Nóg um að vera í Hafnarkirkju á næstunni – uppfært

Alltaf er eitthvað um að vera í kirkjunni okkar á Höfn. Fyrir utan messur og aðrar trúarlegar athafnir þá er kirkjan mikið notuð fyrir alls kyns viðburði. Nýlega var kirkjan fengin að láni undir stóru upplestrarkeppnina þar sem ungir Hornfirðingar og krakkar frá Djúpavogi öttu kappi við hvert annað í upplestri.

Á næstunni verður heilmikið líf í kirkjunni en á næstu fimm vikum er þegar búið að bóka Hafnarkirkju undir fimm tónleika. Tónleikarnir sem verða í kirkjunni eru:

  • Samkór Hornafjarðar, 10. apríl kl. 20:00
  • Friðrik Ómar, 16. apríl kl. 20:00
  • Orgeltónleikar, 26. apríl kl. 15:00
  • Karlakórinn Jökull, 1. maí kl. 17:00
  • Gleðigjafar (Kór eldri borgara), 18. maí kl. 16:00

Núna er bara að merkja viðburðina inn á dagatalið, mæta og njóta.

Ársskýrsla Hafnarsóknar fyrir árið 2013

Aðalfundur 2014
Albert Eymundsson formaður fer yfir skýrslu sóknarinnar

Miðvikudaginn 19. mars síðastliðinn fór fram aðalfundur sóknarnefndar Hafnarsóknar. Venjuleg aðafundarstörf voru á dagskránni og farið var yfir skýrslu sóknarinnar frá árinu áður. Nú hefur þessi skýrsla verið sett á netið og hana er að finna hér en hún er í .pdf formi sem flestar tölvu ættu að geta opnað.

Ársskýrsla 2013 – 2014

Margt áhugavert er að finna í skýrslunni, svo sem fjölda athafa á árinu 2013 og fjárhagsáætlun.

Skírnarkjólar til leigu

Á árinu 2013 voru skírð um 30 börn í Bjarnanesprestakalli. Þegar börn eru borin til skírnar eru þau allajafna í þartilgerðum skírnarkjólum. Það er nokkuð ljóst að það sitja ekki allir á þannig kjólum þó oft er það þannig að sami kjólinn er notaður aftur og aftur innan fjölskyldunnar. Þar sem sú hefð hefur ekki skapast getur fólk lent í vandræðum að nálgast skírnarkjól.

Hafnarsókn býr svo vel að eiga þrjá skírnarkjóla sem hægt er að fá leigða. Gjaldið fyrir leigu á kjólunum felst í að borga hreinsunina á þeim eftir notkun. Kjólarnir eru geymdir í versluninni Hjá Dóru og hægt er að fara þangað til að skoða þá og leigja.

Hægt er að sjá myndir af kjólunum hér.

Fermingardagar vorið 2014

Nú hafa fermingarbörn og foreldrar þeirra staðfest fermingardagana. Alls eru dagarnir fimm en suma daga verður fermt í fleiri en einni kirkju sama dag. Skiptingin er á þessa leið:

  • 13. apríl – Hafnarkirkja og Stafafellskirkja
  • 17. apríl – Hafnarkirkja
  • 19. apríl – Hafnarkirkja og Brunnhólskirkja
  • 20. apríl – Hofskirkja og Bjarnaneskirkja
  • 8. júní – Hafnarkirkja, Bjarnaneskirkja og Brunnhólskirkja