Category Archives: Hafnarsókn

Skírnarkjólar til leigu

Á árinu 2013 voru skírð um 30 börn í Bjarnanesprestakalli. Þegar börn eru borin til skírnar eru þau allajafna í þartilgerðum skírnarkjólum. Það er nokkuð ljóst að það sitja ekki allir á þannig kjólum þó oft er það þannig að sami kjólinn er notaður aftur og aftur innan fjölskyldunnar. Þar sem sú hefð hefur ekki skapast getur fólk lent í vandræðum að nálgast skírnarkjól.

Hafnarsókn býr svo vel að eiga þrjá skírnarkjóla sem hægt er að fá leigða. Gjaldið fyrir leigu á kjólunum felst í að borga hreinsunina á þeim eftir notkun. Kjólarnir eru geymdir í versluninni Hjá Dóru og hægt er að fara þangað til að skoða þá og leigja.

Hægt er að sjá myndir af kjólunum hér.

Fermingardagar vorið 2014

Nú hafa fermingarbörn og foreldrar þeirra staðfest fermingardagana. Alls eru dagarnir fimm en suma daga verður fermt í fleiri en einni kirkju sama dag. Skiptingin er á þessa leið:

  • 13. apríl – Hafnarkirkja og Stafafellskirkja
  • 17. apríl – Hafnarkirkja
  • 19. apríl – Hafnarkirkja og Brunnhólskirkja
  • 20. apríl – Hofskirkja og Bjarnaneskirkja
  • 8. júní – Hafnarkirkja, Bjarnaneskirkja og Brunnhólskirkja

Heimalærdómur fermingarbarna

Það sem fermingarbörn þurfa að læra og kunna eftir áramót.

Gullna reglan
Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra

Tvöfalda kærleiksboðorðið
Jesús segir: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Annað er þessu líkt: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“

Skírnarskipunin
Jesús segir: “Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá til nafns föður og sonar og hins heilaga anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hefi boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar.”

Bæn
Vertu, Guð faðir, faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn,
svo allri synd ég hafni.

Sálmur 273, vers 13
Ég lifi’ í Jesú nafni,
í Jesú nafni’ eg dey,
þó heilsa’ og líf mér hafni,
hræðist ég dauðann ei.
Dauði, ég óttast eigi
afl þitt né valdið gilt,
í Kristí krafti’ eg segi:
Kom þú sæll, þá þú vilt.

Hvað var um að vera í desember

Í desember er stærsta hátíð kristinna manna hér á landi. Það er því ekki hægt að segja annað en það hafi verið nóg að gera í kirkjum prestakallsins í desembermánuði. Með aðventustundum voru athafnir alls 16, ein guðsþjónusta féll niður en það var í Öræfunum á jóladag.

Eitt andlát varð í prestakallinu og eitt barn borið til skírnar.

Andlát
– Jóhanna Vilborg Ingvarsdóttir, Þorgeirsstöðum

Skírn
– Hildur Björg
Foreldrar: Magnús Freyr og Ólöf Inga

Gaman er að segja frá því að alls skírðu prestar Bjarnanesprestakalls alls 30 börn á árinu 2013.