Andlátsfregn

Fjóla Aradóttir frá Borg á Mýrum, síðar húsfreyja á Fossi á Síðu, andaðist á hjúkrunarheimilinu þann 2. maí síðastliðinn.  Útför hennar verður gerð frá Prestbakkakirkju á Síðu þann 11. maí kl. 14:00.  Guð blessi minningu hennar.

Hvað var um að vera í prestakallinu í apríl

Ekki er slegið slöku við hér í prestakallinu frekar en fyrri daginn. Ekki var samt alveg jafn mikið að gera þennan mánuðinn og í marsmánuði. Í prestakallinu voru 4 guðsþjónustur ásamt sunnudagaskóla. Ein stúlka var fermd í Hofskirkju á sumardaginn fyrsta. Blessunarlega varð ekkert andlát þennan mánuðinn, þökkum Guði fyrir það. Haldnir voru tveir aðalsafnaðarfundir, í Bjarnanessókn og Kálfafellsstaðarsókn. Á fundinum hjá Kálfafellsstaðarsókn var m.a. rætt og skoðað nýtt vegstæði að kirkjunni. Um miðjan mánuðinn var haldið samkirkjulegt námskeið. Um var að ræða námskeið sem var haldið vegna hátíðar sem haldin verður í haust í Reykjavík og ber nafnið Hátíð Vonar.

Skírð voru 3 börn:

 • Vilhelm
  Foreldrar: Fjóla Hrafnkelsdóttir og Vigfús Þórarinsson
 • Gerður Lilja
  Foreldrar: Helgi Ragnarsson og Hanna Dís Whitehead
 • Steinþór
  Foreldrar: Haukur Ingi Einarsson og Berglind Steinþórsdóttir

Hvað var um að vera í prestakallinu í mars

Nóg var um að vera í prestakallinu í marsmánuði. Fjöldinn allur af messum og öðrum athöfnum. Í öllu prestakallinu voru 12 guðsþjónustur, kyrrðarstundirnar voru fjórar og voru þær allar í Hafnarkirkju á miðvikudögum. Prestar prestakallsins sem og organisti tóku þátt í Skaftfellingamessu í Breiðholtskirkju á vegum Skaftfellingafélagsins þann 17. mars. Fermingar hófust þann 23. mars með einu barni en alls voru 18 börn fermd í fimm athöfnum í þremur kirkjum í prestakallinu. Engar hjónavígslur voru. Eitt andlát varð:

 • Helgi Halldór Árnason
  Setberg í Nesjum

Skírð voru fjögur börn:

 • Hafsteinn Þór
  Foreldrar: Sandra Lind og Hlynur
 • Auður Inga
  Foreldrar: Halldór Halldórsson og Bergþóra Ó. Ágústsdóttir
 • Elín Rós
  Foreldrar: Eymundur Ragnarsson og Birna Þ. Sæmundsdóttir
 • Sverrir Ketill
  Foreldrar: Gunnar Páll og Helga Guðbjörg

Organistar fá menningarverðlaun

Þann 13. mars sl. voru afhent menningarverðlaun Austur-Skaftafellssýslu. Eru verðlaunin veitt á hverju ári og eru þau veitt þeim sem hafa stutt við og/eða haft menningu sýslunnar í hávegum. Í ár var tveimur mönnum veitt verlaunin og það er gaman að segja frá því að báðir hafa þeir verið organistar í Bjarnanesprestakalli (áður Bjarnanesprestakall og Kálfafellsstaðarprestakall) og annar þeirra er enn starfandi.

Sigjón Bjarnason á Brekkubæ (f. 1931) hefur átt ríkan þátt í að glæða tónlistinni lífi í allri sýslunni. Hann hefur stjórnað ótal kórum og var einnig organisti í Bjarnaneskirkju í fjölda ára.

Sigurgeir Jónsson á Fagurhólsmýri (F. 1932) hefur verið ómissandi þáttur í menningar- og félagslífi Öræfinga. Hann hefur verið organisti í Hofskirkju í rúma tvo áratugi og er enn að, þar sem hann skiptir á milli orgelsins og harmonikkunnar í athöfnum eins og ekkert sé.

Við viðtöku verðlaunanna þökkuðu þeir fyrir og þakka Sigurgeir og tileinkaði þessum verðlaunum konu sinni, Guðmundu, og sagði að án hennar hefði hann aldrei komist upp með að sinna þessu áhugamáli sínu af eins miklum móð og hann hefur gert og gerir enn.

Bjarnanesprestakall óskar þeim báðum til hamingju með verðlaunin.

Andlátsfregn

Helgi Halldór Árnason frá Setbergi í Nesjum andaðist á hjúkrunarheimilinu þann 19. mars s.l.  Útför hans fór fram frá Hafnarkirkju mánudaginn 24. mars kl. 13:00 og hann hlaut leg í kirkjugarðinum við Laxá.  Helgi var 88 ára gamall þegar hann lést.  Guð blessi minningu hans.

Skaftfellingamessa

Sunnudaginn 17. mars, kl. 14:00 verður haldin Skaftfellingamessa í Breiðholtskirkju í Reykjavík.  Sr. Bryndís Malla Elídóttir og sr. Sigurður Kr.  þjóna fyrir altari og  sr. Stígur prédikar í guðsþjónustunni. Kórar leiða saman messusöng undir stjórn Friðriks Vignis Stefánssonar organista og kórstjóra.   Söngfélag Skaftfellinga selur kaffi að lokinni guðsþjónustu í safnaðarheimili kirkjunnar.

Aðalsafnaðarfundur

Aðalsafnaðarfundur Hafnarsóknar verður haldin í safnaðarheimilinu í Hafnarkirkju miðvikudaginn 20. mars kl. 18:45 eða strax að lokinni kyrrðarstund sem hefst kl. 18:15. Venjuleg aðalfundarstörf. Eru allir hvattir til að mæta til kyrrðarstundar áður en fundur hefst.

Hvað var um að vera í prestakallinu í febrúar

Febrúar var góður mánuður þó hann hafi verið stuttur. Alls voru fjórar guðsþjónustur og um miðjan mánuðinn hófst fastan og eins og síðustu ár þá hafa verið haldnar kyrrðarstundir á miðvikudögum, í febrúar voru þær tvær. Ekkert andlát varð í mánuðinum.

Tvö börn voru skírð í febrúar

 • Unnur Mist
  Foreldrar: Stefán Þór og Ingibjörg.
 • Björgvin Aríel
  Foreldrar: Tryggvi Valur og Hanna Guðrún.

 

Nóg verður um að vera í marsmánuði en þá hefjast m.a. fermingar. Fyrsta almenna fermingin er 24. mars.

Ball í Safnaðarheimili Hafnarkirkju!

Það er ekki bara drukkið kaffi og trúartengd mál rædd í safnaðarheimilinu í Hafnarkirkju. Meðal annars eru allskyns fundir þar haldnir en nú síðast í dag var haldið ball þar sem nokkrir tugir komu saman til að skemmta sér og öðrum. Var stiginn villtur og trylltur dans og sungið hástöfum með hljómsveitinni en það var hljómsveitin Hilmar og fuglarnir sem spiluðu fyrir dansi. Myndaðist svo góð stemning að opna þurfti út vegna hita. Gleðin var á andlitum flestra þó að einhverjir hafi hent sér í gólfið og grátið, og aðrir reynt að rjúka úr húsi í fýlukasti. Heyrst hefur að þetta hafi svipað til þeirra skemmtanna sem fóru fram í safnaðarheimilinu í Bjarnaneskirkjunni gömlu sem stóð við Laxá þó að sá sem þetta skrifar hafi ekki samanburð enda ekki fæddur þegar kirkjan var enn uppi standandi. Hér var hins vegar ekki um sama aldurshóp að ræða því í dag var hið árlega Öskudagsball og voru það leikskólabörn á Hornafirði sem fengu að koma að skemmta sér í safnaðarheimilinu. Eins og áður þá ríkti mikil gleði eins og sjá má á myndunum sem settar hafa verið inná myndasíðu prestakallsins á Flickr

http://www.flickr.com/photos/bjarnanesprestakall/