FréttirHafnarsókn

Nýr organisti

Um miðjan ágústmánuð kom til starfa nýr organisti í Hafnarsókn en hann mun einnig sinna öðrum sóknum í prestakallinu ef óskað er eftir því. Það hefur verið organista laust í prestakallinu í rúmt ár eftir að Jörg Sondermann lét af störfum. Í millitíðinni hefur við verið afar heppin að hafa Guðlaugu Hestnes til að aðstoða við við þær athafnir sem á þarf organista.

Nú þegar hefur Hrafnkell spilað í sinni fyrstu messu en það var í Stafafellskirkju í ágúst. Vetrarstarfið í kirkjunni er að hefjast og þar mun Hrafkell sinna kórstjórn og organistastarfinu en hann mun einnig starfa við Grunnskóla Hornafjarðar. En hver er Hrafnkell? Leyfum honum að svara því.

Ég flutti hingað frá Grafarholtinu í Reykjavík fyrir um mánuði síðan og hef ég fengið að kynnast starfinu, bænum og fólkinu vel. Það hefur verið mjög gefandi og hin besta tilbreyting að koma hingað austur, sérstaklega að kynnast starfinu, bæði í Hafnarsókn og í Grunnskóla Hornafjarðar þar sem ég er tónmenntakennari, en einnig náttúrunni og fegurðinni alls staðar í kring.

Starfið byrjar vel, bæði í skólanum og í kirkjunni, æfingar fyrir Samkór Hornafjarðar eru byrjaðar (æfingar á þriðjudögum klukkan 20-22 fyrir áhugasama, hægt að hafa samband við mig beint á Facebook eða í gegnum símann: 862-0798) og er mjög spenntur að sjá hvernig þessi vetur mun fara.

Uppruninn
Ég er 26 ára og uppalinn á Vogum á Vatnsleysuströnd. Móðir mín er fyrrum kennari sem vinnur nú fyrir Öryrkjabandalag Íslands og faðir minn er fyrrum skósmiður.

Lærður á fleiri en eitt hljóðfæri
Ég lærði á selló og píanó í áratug áður en ég færði mig yfir á orgelið þar sem ég bætti við og lagði mikla áherslu á kórstjórnun og einsöng sem er hluti af organistanáminu hjá Tónskóla þjóðkirkjunnar.

Kórstjórnun
Nú í vor bætti ég við kórstjórnunar -og söngvaraprófi fyrir aukna hæfni ofan á kirkjuorganistaprófið sem ég kláraði vorið 2020.

Bach í uppáhaldi
Síðasta árið hef ég verið að læra meira um franska barokktónlist frá samtímamönnum Bachs í Frakklandi, ekki láta ykkur koma á óvart ef kemur tónleikatilkynning í þeim dúr næsta misserið.

Kvikmyndir, tölvuleikir og alls konar
En í raun hef ég notið þess enn meira síðustu árin að spila allskonar tónlist á orgelið, hvort sem það er kvikmyndatónlist, tölvuleikjatónlist, pop, djass og blues. Einnig er hægt að heyra mig spila söngleikjatónlist í kirkjunni ef komið er á réttum tíma.