Vinir í bata – 12 spora starf

Í vetur verður boðið upp á 12 spora starf í Hafnarkirkju. Fyrsti fundur verður haldinn miðvikudaginn 16. september og stendur frá kl. 17:00 – 19:00.

Starf 12 sporanna eru æltuð öllum þeim sem vilja fara yfir líf sitt með það að markmiðið að bæta lífsgæði, öðlast skilning á ómeðvituðum hegðunarmunstrum sem oft eru þróuð í æsku, skilja innihald ýmissa samskipta, vinna úr hvers konar áföllum og fleira. 12 sporin hafa einnig nýst vel gegn hvers konar firringu og afneitun og hafa þar af leiðandi reynst árangurrík leið í baráttunni gegn hvers konar fíkn. 12 spora starfið byggir á trúarlegum grunni og er sprottið frá 12 spora starfi AA – samtakanna.

Leiðbeinandi í vetur er Sveinbjörg Jónsdóttir djáknakandídat og nuddmeistari. Ef einhverjar spurningar vakna er sjálfsagt að hafa samband í síma 869 2364.

Ólafsmessa 29.júlí 2020

Hin árlega Ólafsmessa verður haldin miðvikudagskvöldið 29.júlí kl 20. Verið öll velkomin í Kálfafellstaðarkirkju að hlusta á hugljúfa tónlist þar sem Þórdís Sævarsdóttir og Tara Mobee syngja á rólegum nótum valdar lagaperlur úr söngmöppum sínum við undirleik Vignis Þórs Stefánssonar.

Dagskráin hefst með stuttri helgistund sem sr. Ingimar Helgason leiðir. Einnig verður rifjuð upp sagan um völvuna á Kálfafellsstað og tengingar kirkjunnar við Ólaf helga Noregskonung. Tónleikarnir eru svo í beinu framhaldi og verða um klukkustund.

Að lokum er öllum boðið í gönguferð að völvuleiðinu undir Hellaklettum og rifjuð upp sagan af álögum völvunnar og áhrifum hennar á örlög og líf fólksins í Suðursveit í gegnum aldirnar ef veður leyfirTilvalið fyrir heimamenn að koma og njóta kvöldstundar í Kálfafellsstaðarkirkju og taka gesti með.


Aðgangur ókeypis. Allir velkomnir.

Viðburðurinn er unninn í nánu samstarfi við Þorbergssetur og er þeim bestu þakkir færðar.

Um tónlistarfólkið

Tara Mobee er ung og upprennandi söngkona og lagahöfundur og þykir vænt um hornfirskar rætur sínar. Tara er menntuð frá Tónlistarskólanum í Kópavogi, auk fjölda söng- og tónlistarnámskeiða, m.a. upptökutækni og raftónlist. Tara nam hörpuleik fyrstu árin og hefur síðan þá nýtt píanó- og gítarleik í sinni tónlistarsköpun, ásamt fleiri strengjahljóðfæri. Tara vakti snemma athygli fyrir tón- og lagasmíðar sínar og hefur gefið út eigin lög frá 16 ára aldri, eftir að hún sigraði söngvakeppni Kópavogs með frumsömdu lagi sínu ,,With you“. Tara tók þátt í Eurovision 2019 með laginu ,,Betri án þín“ og átti þar góðu gengi að fagna auk þess sem hún hefur gefið út eigin lög á íslandi, verið í 4 sæti íslenska vinsældarlistans og er í erlendu tónlistarsamstarfi í Sviss og Bandaríkjunum.

Tara Mobee

Þórdís Sævarsdóttir söngkona, kórstjóri og verkefnastjóri er menntuð frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, FÍH, Complete Vocal Technique og Tónskóla Þjóðkirkjunnar  auk þess að vera MA í Menningarstjórnun. Þórdís hefur starfað sem sóló-söngkona samhliða öðrum verkefnum, sungið með fjölda sönghópa, haldið tónleika, tekið að sér bakraddasöng á geislaplötum og verið viðburða- og verkefnastjóri á sviði lista, fræðslu og menningar.

Þórdís Sævarsdóttir

Vignir Þór Stefánsson píanóleikari er menntaður tónmenntakennari frá  Tónlistarskólanum í Reykjavík og með mastersgráðu í djasspíanóleik frá Konunglega Tónlistarháskólanum í Haag í Hollandi. Hann hefur verið virkur í íslensku tónlistarlífi og leikið sem píanó –  og hljómborðsleikari með söngvurum, sönghópum og kórum og hljómsveitum af öllum stærðum og gerðum. Hann hefur komið fram á geislaplötum og í sjónvarpi og leikið á hljómborð í fjölmörgum söngleikjum sem sýndir hafa verið í stærstu leikhúsum landsins. 

Vignir Þór Stefánsson


Sumarfermingar

Vegna ástandsins frestuðust fermingar ársins að mestu til haustsins hins vegnar verða tvær fermingar í sumar þar sem samtals sex börn verða fermd. Báðar fermingarnar fara fram í Hafnarkirkju og má búast við mikilli gleði og hátíðleika. Hér fyrir neðan má sjá nöfn barnanna sem fermast í sumar.

Hafnarkirkja á Youtube

Nú á dögunum var opnuð Youtube rás Hafnarkirkju. Á síðunni verður að finna bænastundir og annað skemmtilegt myndefni.

Nú þegar er hægt að horfa á þrjár bænastundir sem teknar voru upp í samkomubanninu og eru allir hvattir til að horfa á þær.

Þegar fram líða stundir mun meira efni birst á síðunni, gamalt og nýtt. Nú þegar er hægt að fá áminningu um hvítasunnumessu frá árinu 1991 sem mun birtast á síðunni eftir hádegi á hvítasunnudaginn 31. maí.

Annars mælum við eindregið með því að kikið á síðuna. Smellið á myndina til að koma á Youtube rásina.

Klukknahringing á mánudögum

Í gær mánudag var kirkjuklukkunum hringt klukkan 12 að hádegi í þrjár mínútur eins og undanfarið en einnig tóku einhverjir eftir því að kl. 14:00 var klukkunum einnig hringt. Biskup Íslands hefur lagt til að á hverjum mánudegi um óákveðinn tíma verði kirkjuklukkum hringt í tvær mínútur til stuðnings við heilbrigðisstarfsfólk og starfsfólk í umönnunarstörfum vegna covid 19. Við í Bjarnanesprestakalli tökum þessari beiðni biskups fagnandi og því verður kirkjuklukkunum á mánudögum hringt hér eftir kl. 14:00.

Við óskum heilbrigðisstarfsfólki góðs gengis í þeirra störfum og Guðsblessunar og þökkum þeim fyrir þeirra mikilvæga starf á þessum erfiðu og krefjandi tímum. Takk!

Andlát

Látinn er sr. Einar Guðni Jónsson, sr. Einar á Kálfafellsstað. Einar lést 4. apríl s.l. á Landakoti í Reykjavík þar sem hann hefur búið undanfarin ár.

Einar og Kálfafellsstaðarkirkja

Margir minnast Einars með hlýju enda þægilegur framkomu og skemmtilega ræðinn. Hann lét það ekki eftir sér að sinna öllum þeim verkum sem þurfti er snéri að athöfnum í kirkjunni og þá skipti það ekki máli hvort um var að ræða hringjara, organista, forsöngvara eða prest. Hann var duglegur að heimsækja sóknarbörnin og það þótti þeim vænt um.

Sr. Einar er kvaddur með virðingu og þökk fyrir starf hans hér í sýslunni. Guð blessi minningu hans og megi Guðs eilífa ljós lýsa honum.

Afhverju er alltaf verið að hringja kirkjuklukkunum í hádeginu?

Hvatning biskups

Biskup Íslands hvatti til samlíðunar og ábyrgðar á þessum sérstöku tímum við við lifum við með því að hringja kirkjuklukkunum í þrjár mínútur, alltaf kl. 12:00 að hádegi. Kirkjur um allt land taka þátt í þessu verkefni á meðan þessu ástandi stendur.

Hvaða merkingu hafa kirkjuklukkurnar

Þær kalla okkur inn til guðsþjónustu og senda okkur út til guðsþjónustu. Á tímum þegar ekki er hægt að fjölmenna í kirkjum landsins, þá er boðskapur klukknanna enn sá sami að við erum bræður og systur og tilheyrum sömu fjölskyldu og berum ábyrgð sem slík.

Bænastundir sendar út

Einu sinni í viku verður bænastund eftir hringingu klukknanna send á hjúkrunarheimilið þar sem beðið verður fyrir landi og þjóð vegna ástandsins og óski fólk eftir bænarefnum þá má hafa samband við sóknarprest. Vonir standa til að hægt verði að streyma þessum stundum á netinu áður en langt um líður.