Fréttir

Organistar fá menningarverðlaun

Þann 13. mars sl. voru afhent menningarverðlaun Austur-Skaftafellssýslu. Eru verðlaunin veitt á hverju ári og eru þau veitt þeim sem hafa stutt við og/eða haft menningu sýslunnar í hávegum. Í ár var tveimur mönnum veitt verlaunin og það er gaman að segja frá því að báðir hafa þeir verið organistar í Bjarnanesprestakalli (áður Bjarnanesprestakall og Kálfafellsstaðarprestakall) og annar þeirra er enn starfandi.

Sigjón Bjarnason á Brekkubæ (f. 1931) hefur átt ríkan þátt í að glæða tónlistinni lífi í allri sýslunni. Hann hefur stjórnað ótal kórum og var einnig organisti í Bjarnaneskirkju í fjölda ára.

Sigurgeir Jónsson á Fagurhólsmýri (F. 1932) hefur verið ómissandi þáttur í menningar- og félagslífi Öræfinga. Hann hefur verið organisti í Hofskirkju í rúma tvo áratugi og er enn að, þar sem hann skiptir á milli orgelsins og harmonikkunnar í athöfnum eins og ekkert sé.

Við viðtöku verðlaunanna þökkuðu þeir fyrir og þakka Sigurgeir og tileinkaði þessum verðlaunum konu sinni, Guðmundu, og sagði að án hennar hefði hann aldrei komist upp með að sinna þessu áhugamáli sínu af eins miklum móð og hann hefur gert og gerir enn.

Bjarnanesprestakall óskar þeim báðum til hamingju með verðlaunin.