FréttirHafnarsókn

Allra heilagra messa

Allra heilagra messa er 1. nóvember. Hún á sér fornar rætur því vitað er til að messur þar sem beðið var fyrir látnum voru haldnar þegar á 4. öld eftir Krist.

Allra heilagra messa varð snemma einn af helgustu messudögum íslensku kirkjunnar og var ekki afnumin í þeirri mynd fyrr en árið 1770, eða rúmum 200 árum eftir upphaf siðaskipta.

Þetta er messudagur þeirra heilagra manna sem ekki hafa sérstakan
messudag. Allra heilagra messa er í sívaxandi mæli að verða minningardagur um þau sem gengin eru á undan okkur.

Að þessu sinni verður allra heilagra messu minnst sunnudaginn 2. nóvember með guðsþjónustu í Hafnarkirkju kl. 17:00.  Guðsþjónustan er sérstaklega helguð minningu látinna og einkum þeirra sem látist hafa á undangengnu ári.

Aðstandendum og öllum þeim sem misst hafa er boðið að koma og eiga friðsæla, íhugunar-, bæna- og minningastund.

Í messunni verður fjallað um merkingu þessa helgidags.  Þá verður
sérstaklega beðið fyrir þeim sem létust síðastliðið ár og nöfn þeirra nefnd. Ef  óskað er eftir að aðrir sem látnir eru verði nefndir og sérstaklega beðið fyrir þeim er það auðvitað velkomið.

Beiðnum um það má koma til sr. Sigurðar í síma 894 3497 eða sr. Stígs í síma 862 6567, eða á netfangið
bjarnanesprestakall@bjarnanesprestakall.is