FréttirKálfafellsstaðarsókn

Ólafsmessa í Kálfafellsstaðarkirkju

Hinir árlegu tónleikar  á Ólafsmessu verða  í Kálfafellsstaðarkirkju föstudagskvöldið 29. júlí næstkomandi. Það er Jónína Aradóttir tónlistarmaður ættuð frá Hofi í Öræfum sem flytur eigin tónlist, en einnig ýmis þekkt  ,,Öræfalög”.  Samverustundin er tengd gömlum sögnum tengdum Ólafi helga Noregskonungi en hann var verndardýrlingur kirkjunnar á Kálfafellsstað. Hann féll í bardaga á Stiklastöðum í Noregi 29. júlí 1030 og er  Ólafsmessa á sumri helguð þessum atburði.

Rifjuð verður upp gömul þjóðsaga um völvuna á Kálfafellsstað sem var systir Ólafs helga og lesin saga um líkneski af Ólafi helga sem gefið var til kirkjunnar upp úr aldamótunum 1700 til að hnekkja álögum völvunnar á staðnum.  Líkneskið er varðveitt í Þjóðminjasafninu. Lesin er frásaga Kristjáns Eldjárns af líkneskinu, síðan hefjast tónleikarnir og standa í um klukkustund. Á eftir er farið í heimsókn að Völvuleiðinu við Hellakletta og Fjölnir Torfason á Hala segir frá gömlum sögum er tengjast staðnum Einnig sýnir hann áþreifanlega muni frá Kálfafellsstað sem varðveist hafa og sanna mátt völvunnar og áhrif hennar á lífið í Suðursveit allt fram á okkar daga.

olafsmessa2016
Smellið á myndina til að sjá hana stærri

Dagskráin er eftirfarandi og hefst kl. 20:00

Helgistund: Séra Gunnar Stígur Reynisson
Upplestur: Völvan á Kálfafellsstað; Þorbjörg Arnórsdóttir
Tónleikar: Jónína Aradóttir frá Hofi í Öræfum flytur eigin ljóð og lög, ásamt þekktum gömlum Öræfalögum
Gönguferð að Völvuleið: Fjölnir Torfason segir frá.

Það er Kálfafellsstaðarkirkja og Þórbergssetur standa fyrir viðburði þessum.