Category Archives: Fréttir

Hvað var um að vera í prestakallinu í febrúar

Febrúar var góður mánuður þó hann hafi verið stuttur. Alls voru fjórar guðsþjónustur og um miðjan mánuðinn hófst fastan og eins og síðustu ár þá hafa verið haldnar kyrrðarstundir á miðvikudögum, í febrúar voru þær tvær. Ekkert andlát varð í mánuðinum.

Tvö börn voru skírð í febrúar

 • Unnur Mist
  Foreldrar: Stefán Þór og Ingibjörg.
 • Björgvin Aríel
  Foreldrar: Tryggvi Valur og Hanna Guðrún.

 

Nóg verður um að vera í marsmánuði en þá hefjast m.a. fermingar. Fyrsta almenna fermingin er 24. mars.

Ball í Safnaðarheimili Hafnarkirkju!

Það er ekki bara drukkið kaffi og trúartengd mál rædd í safnaðarheimilinu í Hafnarkirkju. Meðal annars eru allskyns fundir þar haldnir en nú síðast í dag var haldið ball þar sem nokkrir tugir komu saman til að skemmta sér og öðrum. Var stiginn villtur og trylltur dans og sungið hástöfum með hljómsveitinni en það var hljómsveitin Hilmar og fuglarnir sem spiluðu fyrir dansi. Myndaðist svo góð stemning að opna þurfti út vegna hita. Gleðin var á andlitum flestra þó að einhverjir hafi hent sér í gólfið og grátið, og aðrir reynt að rjúka úr húsi í fýlukasti. Heyrst hefur að þetta hafi svipað til þeirra skemmtanna sem fóru fram í safnaðarheimilinu í Bjarnaneskirkjunni gömlu sem stóð við Laxá þó að sá sem þetta skrifar hafi ekki samanburð enda ekki fæddur þegar kirkjan var enn uppi standandi. Hér var hins vegar ekki um sama aldurshóp að ræða því í dag var hið árlega Öskudagsball og voru það leikskólabörn á Hornafirði sem fengu að koma að skemmta sér í safnaðarheimilinu. Eins og áður þá ríkti mikil gleði eins og sjá má á myndunum sem settar hafa verið inná myndasíðu prestakallsins á Flickr

http://www.flickr.com/photos/bjarnanesprestakall/

Langafasta

Nú líður að föstu.  Hún hefst á öskudag 13. febrúar.  Í sjö vikur fyrir páska íhuga kristnir menn pínu og dauða Jesú.  Fastan hefur ekki lengur þann sess í hugum fólks sem hún hafði áður fyrr, þegar t.d. var ekki borðað kjöt frá öskudegi til páskadags.  Fastan er tími íhugunar og iðrunar og hefur þess mátt sjá stað í kristinni kirkju um aldir.  Helgihaldið í kirkjunni ber merki þeirra atburða sem urðu í lífi Jesú Krists sem leiddu til dauða hans á krossi.
Í Hafnarkirkju verður helgihald á föstu með svipuðu sniði og áður.  Auk hefðbundinnar guðsþjónustu annan hvern sunnudag verður kyrrðarstund hvern miðvikudag fram að páskum.  Stundin hefst kl. 18:15.  Þar verður lesið úr píslarsögu Jesú, sungnir sálmar og beðnar bænir.  Beðið verður sérstaklega fyrir sjúkum og þeim sem minna mega sín og taka prestarnir á móti sérstökum bænarefnum sem fólk vill að borin verði fram.  Kyrrðarstundinni lýkur síðan með altarisgöngu.
Við hvetjum ykkur til að koma til kirkju á miðvikudögum fram að páskum og nota föstutímann til íhugunar, uppbyggingar og trúarstyrkingar. Guð láti gott á vita.

Hvað hefur gerst í prestakallinu – nýr liður.

Mikið er um að vera hjá prestum prestakallsins án þess að bæjarbúar taki eftir því. Þessi verk geta til dæmis verið hjónavígslur, skírn og útfarir. Við prestarnir höfum ákveðið að taka upp nýjan lið hér á síðunni þar sem birt eru nöfn þeirra sem hafa gengið í hjónaband, verið skírð og látist innan prestakallsins. Aðeins eru nöfn birt með leyfi aðstandenda eða þeirra sjálfra.

Engin skírn var í janúar en milli jóla og nýárs voru tveir drengir skírðir:

 • Ágúst Logi
  Foreldrar: Þóra Björg og Gísli Karl.
 • Garpur
  Foreldrar: Þórdís og Guðjón.

Í janúar létust:

 • Bjarni Gunnar Sigurðsson, Holtaseli.
 • Hulda Sigurðardóttir, Víkurbraut 26.
 • Ingibergur Sigurðsson frá Hvammi.

Andlátsfregn

Þann 23. janúar s.l. andaðist Bjarni Gunnar Sigurðsson frá Holtaseli á Mýrum á heimili sínu.  Hann var á 92. aldursári.  Guð blessi minningu hans.  Útför Bjarna Gunnars verður gerð frá Brunnhólskirkju laugardaginn 2. febrúar kl. 14:00.

Andlátsfregn

Þann 13. janúar s.l. andaðist á hjúkrunarheimilinu Ingibergur Sigurðsson frá Hvammi í Lóni.  Hann var á 90. aldursári.  Guð blessi minningu hans.  Útför Ingibergs verður gerð frá Hafnarkirkju laugardaginn 19. janúar kl. 13:00.  Greftrað verður í Stafafellskirkjugarði.

Skírnarskipunin og sálmur

Búið var að lofa ykkur skírnarskipuninni hér á vefinn og hún er hér:

Jesús segir: “Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég með yður alla daga allt til enda veraldar.” (Matt. 28. 18 – 20)

 

Svo er hér Youtube hlekkur á annan sálminn sem þið þurfið að kunna, ég á því miður ekki hinn sálminn sunginn.
http://www.youtube.com/watch?v=IwR15RRpevM

MInningarkort

Heyrst hefur að fólk hefur verið að velta fyrir sér hvar sé hægt að nálgast minningarkort kirknanna í prestakallinu.

Hægt er að fá minningarkort á eftirfarandi stöðum

Minningarkort Hafnarkirkju:

Sport-X Miðbæ, sími 478-1966

Ástríður Sveinbjörnsdóttir (Ásta Sveinbjörns) í Landsbankanum

Guðrún Þorsteinsdóttir (Gunna Steina) í Landsbankanum

 

Minningarkort Bjarnaneskirkju:

Valgerður Gunnarsdóttir á Stapa, sími 478-1454

Halldóra Ingólfsdóttir í Efnalaug Dóru, sími 478-2216

Andlátsfregn

Að morgni hins 3. janúar s.l. lést Hulda Sigurðardóttir á heimili sínu.  Hulda fæddist í Haga hér á Höfn þann 4. mars 1931.  Útför hennar fer fram frá Hafnarkirkju laugardaginn 12. janúar n.k. kl. 14:00.