Category Archives: Hafnarsókn

Hafnarkirkja er bleik

WP_20141003_21_41_58_Pro
Bleikur blær yfir kirkjuturninum.

Í ár rétt eins og síðustu ár er Hafnarkirkja lýst bleikum lit er þetta í tilefni átaksins Bleika slaufan sem stendur yfir í októbermánuði. Bleika slaufan er tákn krabbameinsfélagsins í baráttunni gegn krabbameini í konum. Árið 2000 var átakinu hleypt af stokkunum hérlendis og hafa sóknir um allt land verið að bætast í hópinn og sýnt átakinu stuðning í verki með því að lýsa upp kirkjur sínar.

Messa og sunnudagaskóli – Væntanleg fermingarbörn velkomin

Sunnudaginn 21. september hefst vetrarstarfið formlega þegar sunnudagaskólinn byrjar og væntanleg fermingarbörn eru boðin velkomin.

Á næstu dögum fá væntanleg fermingarbörn og foreldrar þeirra bréf þar sem þau verða boðuð til messu og fundar sem verður strax eftir messuna. Þar verður farið yfir fermingarfræðsluna og val á fermingardögum rætt.

Annars eru  allir velkomnir í messu. Sjáumst á sunnudaginn.

Hvað var um að vera í prestakallinu í júlí

Sumarið hefur staðið sem hæst þó veðrið hafi ekki verið hið besta en við kvörtum ekki. Júlí mánuður hefur ekki farið í sumarfrí hjá prestunum því messur voru um hverja helgi í mánuðinum í prestakallinu. Messur voru í Hafnarkirkju, Bjarnaneskirkju, Brunnhólskirkju og Kálfafellsstaðarkirkju en í þessi síðastnefndu var Ólafsmessa.

Ólafsmessa er orðin fastur liður í sumarmessum prestakallsins og um leið menningarlífi sveitarfélagsins. Í ár voru það Þórdís Sævarsdóttir söngkona frá Rauðabergi á Mýrum, Ingólfur Steinsson listamaður frá Seyðisfirði sem á ættir sínar að rekja að Kálfafelli í Suðursveit og Óskar Guðnason tónlistarmaður sem sungu lög Óskar Guðnasonar við texta Kristínar Jónsdóttur frá Hlíð.

Fyrir utan messur voru nokkur börn skírð. Enginn var jarðsettur í mánuðinum.

Skírn
– Ragnar Sveinn
Foreldrar: Sindri og Fanney Björg

–  Anna Margrét
Foreldrar: Lilja Rós og Óskar

– Aðalsteinn Ómar
Foreldri: Lilja Rós

Gifting
Katrín Soffía og Jón Kristófer

Kirkjur Íslands komið út

Fyrir stuttu kom út nýtt bindi í ritröðinni Kirkjur Íslands. Í þessari ritröð er fjallað um friðaðar kirkjur um allt land þar sem horft er sérstaklega til byggingarlistar, stílfræði og þjóðminjavörslu.

Í þessu bindi eru teknar fyrir kirkjur á Suður og Suðausturlandi og eigum við í Bjarnanesprestakalli fjórar kirkjur. Þessar kirkjur eru Stafafellskirkja, Brunnhólskirkja, Kálfafellsstaðarkirkja og Hofskirkja. Margar áhugaverðar og skemmtilegar lýsingar koma þar fram um kirkjurnar og eru því allir hvattir til að líta í þessa fallegu bók.

Guðshús í prestakallinu í gegnum aldirnar

Það er ljóst að íbúar Austur – Skaftafellssýslu hafa lengi verið trúaðir. Fyrir nokkrum misserum afhenti Sigurður Hannesson prestakallinu lista yfir þau Guðshús sem reist hafa verið í sýslunni. Um er að ræða 35 hús á fjölmörgum bæjum í allri sýslunni og er gaman að renna yfir listann og sjá hvar staðið hafa hús sem notuð hafa verið til tilbeiðslu og annarra athafna.

Listann er að finna undir flipanum Um prestakallið en það má einnig smella hér til að sjá listann.

Fyrsti sláttur ársins 2014 í dag

Það veitir alltaf á gott þegar maður heyrir í slátturvélinni í kirkjugarðinum á Höfn, það er merki um að það sé komið sumar. Nú í dag var fyrsti sláttur í garðinum, eins og sést á myndinni, og er það rúmlega viku fyrr en í fyrra. Garðurinn kemur vel undan vetri og lítur vel út. Fólk er hvatt til að hreinsa og snyrta leiði ástvina sinna eftir veturinn. Þess má geta að búið er að koma upp fiskikari fyrir garðaúrgang framan við garðinn þannig að það þarf ekki að taka hann með sér. Einnig er krani með rennandi vatni og garðkanna á staðnum þannig að auðvelt er vökva sumarblómin sem komið er fyrir á leiðunum.

Reglur um umgengni Hafnarkirkjugarðs má sjá hér.

Íþróttamessa

Nú er vetrarstarfi Sindra að ljúka og sumarstarfið að byrja og vegna þess verður íþróttamessa í Hafnarkirkju sunnudaginn 11. maí klukkan 14:00. Íþróttakappar á öllum aldri munu aðstoða í messunni og Óli Stefán Flóventsson mun sjá um hugleiðingu.

Allir eru hvattir til að mæta í Sindrabúning eða einhverju rauðu.

Sýnum samhug, biðjum saman og fyrir íþróttafólkinu okkar í Sindra.