Category Archives: Hafnarsókn

Fjölskylduguðsþjónusta

Næsta sunnudag kl. 11:00 verður fjölskylduguðsþjonusta í Hafnarkirkju. Þar verur lögð áhersla á börnin og verða meðal annars einungis sungin lög úr sálmabók barnanna. Predikunin verður myndræn og höfðar til barna. Einnig verður teiknimynd sýnd í guðsþjónustunni sem bæði börnum og fullornum mun eflaust finnast skemmtileg.

Allir eru því hvattir til að mæta í messu á sunnudagsmorgun og hafa gaman í kirkjunni.

Star Wars í Hafnarkirkju

Þann 9. október síðastliðinn voru tónleikar í Hafnarkirkju þar sem organistinn í Skálholti, Jón Bjarnason, lék tónlist á pípuorgelið sem alla jafna er ekki leikin í kirkjum. Um var að ræða tónlist úr þekktum Hollywood-kvikmyndum, þ.á.m. úr Star Wars. Hér fyrir neðan má sjá brot frá þessum tónleikum.

Imperial March – Star Wars

Cantina Band – Star Wars

Fermingardagar fyrir árið 2015

Ákveðnir hafa verið fermingardagar fyrir árið 2015.

Reynt var að koma á móts við allar beiðnir foreldra og er von um að það hafi tekist.

Þeir dagar sem gefnir verða upp hér að neðan munu verða í höndum sr. Stígs, nema annað sé tekið fram.

Hægt verður að koma með börn til fermingar alla messudaga eftir að fermingarfræðslu lýkur þó þeir séu ekki gefnir upp hér.

Hafnarkirkja
– Pálmasunnudagur 29. mars kl. 11:00
– Laug. fyrir páska 4. april kl. 11:00
– Hvítasunnudagur 24. mai kl. 11:00

Bjarnaneskirkja
Páskadagur 5. apríl kl. 13:00

Hoffellskirkja
– Laug. fyrir páska 4. apríl kl: 14:00

Kálfafellsstaðarkirkja
– Skírdagur 2. apríl kl. 14:00

Stafafellskirkja
– Annar í páskum 6. apríl kl. 14:00 (sr. Sigurður)

Eru foreldrar beðnir um að staðfesta sem fyrst þá daga sem þau hyggjast koma með börn sín til fermingar með því að senda tölvupóst á stigur.reynisson@kirkjan.is

Hafnarkirkja er bleik

WP_20141003_21_41_58_Pro
Bleikur blær yfir kirkjuturninum.

Í ár rétt eins og síðustu ár er Hafnarkirkja lýst bleikum lit er þetta í tilefni átaksins Bleika slaufan sem stendur yfir í októbermánuði. Bleika slaufan er tákn krabbameinsfélagsins í baráttunni gegn krabbameini í konum. Árið 2000 var átakinu hleypt af stokkunum hérlendis og hafa sóknir um allt land verið að bætast í hópinn og sýnt átakinu stuðning í verki með því að lýsa upp kirkjur sínar.

Messa og sunnudagaskóli – Væntanleg fermingarbörn velkomin

Sunnudaginn 21. september hefst vetrarstarfið formlega þegar sunnudagaskólinn byrjar og væntanleg fermingarbörn eru boðin velkomin.

Á næstu dögum fá væntanleg fermingarbörn og foreldrar þeirra bréf þar sem þau verða boðuð til messu og fundar sem verður strax eftir messuna. Þar verður farið yfir fermingarfræðsluna og val á fermingardögum rætt.

Annars eru  allir velkomnir í messu. Sjáumst á sunnudaginn.

Hvað var um að vera í prestakallinu í júlí

Sumarið hefur staðið sem hæst þó veðrið hafi ekki verið hið besta en við kvörtum ekki. Júlí mánuður hefur ekki farið í sumarfrí hjá prestunum því messur voru um hverja helgi í mánuðinum í prestakallinu. Messur voru í Hafnarkirkju, Bjarnaneskirkju, Brunnhólskirkju og Kálfafellsstaðarkirkju en í þessi síðastnefndu var Ólafsmessa.

Ólafsmessa er orðin fastur liður í sumarmessum prestakallsins og um leið menningarlífi sveitarfélagsins. Í ár voru það Þórdís Sævarsdóttir söngkona frá Rauðabergi á Mýrum, Ingólfur Steinsson listamaður frá Seyðisfirði sem á ættir sínar að rekja að Kálfafelli í Suðursveit og Óskar Guðnason tónlistarmaður sem sungu lög Óskar Guðnasonar við texta Kristínar Jónsdóttur frá Hlíð.

Fyrir utan messur voru nokkur börn skírð. Enginn var jarðsettur í mánuðinum.

Skírn
– Ragnar Sveinn
Foreldrar: Sindri og Fanney Björg

–  Anna Margrét
Foreldrar: Lilja Rós og Óskar

– Aðalsteinn Ómar
Foreldri: Lilja Rós

Gifting
Katrín Soffía og Jón Kristófer

Kirkjur Íslands komið út

Fyrir stuttu kom út nýtt bindi í ritröðinni Kirkjur Íslands. Í þessari ritröð er fjallað um friðaðar kirkjur um allt land þar sem horft er sérstaklega til byggingarlistar, stílfræði og þjóðminjavörslu.

Í þessu bindi eru teknar fyrir kirkjur á Suður og Suðausturlandi og eigum við í Bjarnanesprestakalli fjórar kirkjur. Þessar kirkjur eru Stafafellskirkja, Brunnhólskirkja, Kálfafellsstaðarkirkja og Hofskirkja. Margar áhugaverðar og skemmtilegar lýsingar koma þar fram um kirkjurnar og eru því allir hvattir til að líta í þessa fallegu bók.