FréttirHafnarsókn

Kyrrðarstundir á föstu

Kyrrðarstundir á föstu á hverjum fimmtudegi kl. 18:15

Fastan hefst á öskudegi, miðvikudaginn 14. febrúar. Líkt og undanfarin ár verða kyrrðastundir í Hafnarkirkju í 7 vikur á föstunni. Helgihald í kirkjunni á föstu verður með svipuðu sniði og áður.  Auk hefðbundinnar guðsþjónustu annan hvern sunnudag verður kyrrðarstund hvern fimmtudag fram að páskum.  Stundin hefst kl. 18:15.  Þar verður lesið úr píslarsögu Jesú, Passíusálmar Hallgríms Péturssinar lesnir, sungnir sálmar og beðnar bænir.  Beðið verður sérstaklega fyrir sjúkum og þeim sem minna mega sín og taka prestarnir á móti sérstökum bænarefnum sem fólk vill að borin verði fram. Hægt er að senda bænarefni í tölvupósti til prestanna á netfangið bjarnanesprestakall@bjarnanesprestakall.is

Fastan á að minna okkur á þá 40 daga sem Jesús fastaði í eyðimörkinni. Fastan miðar að dauða Jesú og er undirbúningstími kristinna safnaða og að þeir íhugi þá atburði sem leiddu til aftöku Jesú á föstudeginum langa.  Í sjö vikur fyrir páska íhuga kristnir menn þessa atburði.  Fastan hefur ekki lengur þann sess í hugum fólks sem hún hafði áður fyrr, þegar t.d. var ekki borðað kjöt frá öskudegi til páskadags.  Fastan er tími íhugunar og iðrunar og hefur þess mátt sjá stað í kristinni kirkju um aldir.  Helgihaldið í kirkjunni ber merki þeirra atburða sem urðu í lífi Jesú Krists sem leiddu til dauða hans á krossi. Litur föstunnar, sjövikna föstu, langaföstu er fjólublár, litur iðrunarinnar.

Við hvetjum ykkur til að koma til kirkju á fimmtudögum fram að páskum og nota föstutímann til íhugunar, uppbyggingar og trúarstyrkingar.

Verið velkomin

Prestarnir.