Brunnhólssókn

Brunnhólskirkja

Á Mýrum stóð kirkja upphaflega í Einholti og hét sóknin þá Einholtssókn og má geta þess að elsti máldagi Einholtskirkju er í Vilkinsbók frá árinu 1397. Kirkjan að Einholti var Maríukirkja en forðum var einnig kirkja og síðar bænhús á Viðborði. Árið 1824 var kirkjan að Einholti flutt að Holtum vegna vatnsgangs. Að Holtum var byggð torfkirkja og nýr kirkjugarður tekinn þar upp. Árið 1840 lagði sr. Jón Bergsson það til við biskup að kirkjan yrði flutt að Brunnhóli eða Slindruholti enda var kirkjan farin að láta á sjá. Biskup varð ekki við beiðni sr. Jóns og var byggð ný timburkirkja í Holtum árið 1861. Það var svo árið 1899 að kirkjan var rifin og ný kirkja byggð að Slindurholti. Kirkjan er byggð uppi á holtinu sem bærinn að Slindruholti stóð utan í en bærinn fór í eyði 1894.

Brunnholl2Kirkjan að Slindruholti var timburkirkja með járnþaki og um byggingu kirkjunnar sá Móritz Steinsen, en hann varð síðan bóndi í Krossbæ. Jón Jónsson prófastur lýsti kirkjunni svona: „Hún er ca. 12, álnir að lengd… 8 á breidd… þrír gluggar á hvorri hlið og einn á framstafni… Bekkir eru 5 hvoru megin í framkirkjunni. … Kirkjan er öll með hvelfingu og 3 millibitum.“ Kirkjan skemmdist fljótt enda er talið að timbur í gömlu kirkjunni hafi verið notað við byggingu kirkjunnar. Um áratug eftir að hún var vígð var hún vart fokheld. Farið var í endurbætur á henni vegna þessa. Nokkrum árum seinna var farið í enn meiri framkvæmdir til að koma henni í fulltgilt ástand. Þegar Jón Helgason vísiteraði kirkjuna árið 1918 var farið að kalla hana Brunnhólskirkju. Lágmarks viðhald var á kirkjunni næstu áratugi og árið 1943 voru háværar raddir um hversu gisin og köld hún væri. Farið var að skoða að múrhúða kirkjuna og þegar biskup vísiteraði kirkjuna árið 1944 var það viðgerðarform ákveðið.

Það var svo árið 1951 sem kirkjan sem við þekkjum í dag sem Brunn-hólskirkju leit dagsins ljós. Þá var hún endurbyggð, grunnur steyptur, og veggir og stafnar þéttaðir með múrhúðun. Auk þess var steypt við hana forkirkja. Hönnuður var Sigurður Sigurðsson frá Höfn og var það Ari Sigurðsson bóndi frá Borg sem vann endurbæturnar. Næstu hálfu öldina var eitthvað um viðhald en það var svo um aldamótin sem ástand kirkjunnar var orðið afar slæmt. Endurbætur hófust árið 2004 og var ákveðið að byggja nýja kirkju innan í steyptu skelinni. Það var ákveðið að reyna endurskapa upprunalegu kirkjuna að innan eins og hægt var. Árni Kjartansson hafði yfirumsjón með verkinu og Sveinn Sighvatsson sá um smíðavinnuna. Þar var svo um páskanna árið 2006 sem messað var á ný í kirkjunni eftir fjögurra ára hlé.

Brunnholl3Við kirkjuna er kirkjugarður og er elsta dánardagsetningin frá árinu 1903.

Heimild: Byggðasaga Austur – Skaftafellssýslu; Prestatal og prófasta á Íslandi; Kirkjur Íslands

Fleiri myndir af Brunnhólskirkju er að finna á myndasíðunni okkar sem er hér í flipunum að ofan eða á Fickr-síðunni okkar.

Sóknarnefnd Brunnhólssóknar

Elínborg Baldursdóttir
Kristín Egilsdóttir
Ingunn Ingvarsdóttir, formaður – 478 1023