Bjarnaneskirkja

Bjarnaneskirkja-klukka
Kirkjuklukka Bjarnaneskirkju

Árið 1957 var hafin bygging á nýrri kirkju í Bjarnanesi eftir að Bjarnaneskirkja við Laxá var rifin. Hannes Kr. Davíðsson (d. 1995) arkitekt teiknaði kirkjuna en hugsanlega var hann fenginn til verksins þar sem hann dvaldi á æskuárum sínum í Svínafelli í Nesjum og sótti skóla í sveitinni. Bjarnesneskirkja var eina kirkjan sem Hannes teiknaði sé utan talin kaþólsk kirkja í Breiðholtinu. Eitt þekktasta verk Hannesar, ásamt Bjarnaneskirkju, mun vera Kjarvalsstaðir við Klambratún í Reykjavík.

Kirkjan sem Hannes teiknaði var óvenjuleg og umdeild svo ekki sé meira sagt. Þetta er nýstárleg bygging hvað form varðar en hún er mynduð af tveimur hlutum, píramída og sveigðri hvelfingu sem rís talsvert og víkkar mót vestri.

Bjarnaneskirkja
Bjarnaneskirkja

Hannes mun hafa verið fyrsti arkitektinn til að vinna hugmyndina um steypuskel þar sem veggir og loft renna saman í eitt. Birta var Hannesi hugleikin og má sjá þess merki í Bjarnaneskirkju. Dagsbirta berst úr einni átt þ.e. vestri um glugga sem eru á turninum og á gafli kirkjuskipsins, endurskip birtunnar gegnir því mikilvægu hlutverki í kirkjunni.

Byggingarmeistari var Guðmundur Jónsson en hann sá einnig um byggingu Hafnarkirkju. Bjarnaneskirkja-inniÍ Skaftfellingi segir hann frá hvernig gekk að byggja kirkjuna og greinir m.a. frá undirslættinum sem var talsverður. Hannes vildi að kirkjan yrði ekki múruð og sáust því borðaförin vel. Einnig var ákveðið að einangra ekki kirkjuna en að leggja stokka inn í kirkjuskipið og leiða þannig heitt loft inn í kirkjuna. Nokkru síðar kom upp sú hugmynd að einangra kirkjuna en verkfræðingar lögðust gegn því. Fyrir framan kirkjuna hangir klukkan úr gömlu Bjarnaneskirkjunni við Laxá og eru enn notuð sem kirkjuklukka í dag.

Fleiri myndir af Bjarnaneskirkju er að finna á myndasíðunni okkar sem er hér í flipunum að ofan eða á Fickr-síðunni okkar.

Heimildir: Morgunblaðið og Skaftfellingur 14. árg.