Ferming

Ferming þýðir staðfesting. Í fermingunni staðfestir barnið skuldbindingu foreldra og guðfeðgina í skírnarathöfninni. Það staðfestir um leið að gera Jesú Krist að leiðtoga síns lífs. Í fermingarathöfninni fer það með trúarjátninguna, vinnur fermingarheit og þiggur fyrirbæn og blessun. Fermt er við messu. Til þess að öðlast rétt til að mega fermast stundar fermingarbarnið sérstakt nám í kristnum fræðum hjá presti sínum eða fermingarfræðara, sem kallast fermingarfræðsla.

Næstum fjögur þúsund börn eru fermd í þjóðkirkjunni á hverju ári. Flest þeirra voru skírð sem ungbörn. Hægt er að taka þátt í fermingarfræðslunni þótt fermingarbarnið hafi ekki verið skírt. Þá kynnistu trúnni og kirkjunni yfir veturinn og tekur afstöðu til þess hvort þú vilt skírast og fermast.

Krakkar sem hafa ekki verið skírðir þegar fermingarfræðslan hefst eru oftast skírðir á undirbúningstímanum. Það getur verið mjög hátíðlegt.

Það er misjafnt eftir kirkjum hvernig fermingarfræðslan fer fram. Hún gengur alltaf út á að fást við upplifun fermingarbarnanna, fræðslu, samtöl um kristna trú og stóru spurningarnar í lífinu.

Verkefnavinna og samtal eru hluti af fermingarfræðslunni.
Fermingarbarnið tekur þátt í lífinu í kirkjunni, þar með talið messum. Mikilvægur hluti af fermingarvetrinum felst í því að eignast minningar með öðrum. Munið að allir hafa rétt á því að fermast.

Í fermingarfræðslunni ræðum við um

  • vináttu og sambönd,
  • guðsþjónustuna og altarisgönguna,
  • sorg og gleði, gott og illt,
  • Guð, Jesú og heilagan anda,
  • kærleika og ást,
  • Biblíuna og bænina,
  • hugmyndir okkar um hvað það er að vera manneskja, 9 umhverfi og
  • réttlæti,hógværð og virðingu.

Fermingin sjálf kostar ekkert nema beðið sé sérstaklega um einkafermingu en fermingarfræðslan kostar 20.777 kr.