Hoffellskirkja

HoffellskirkjaHoffellskirkja er í einkaeigu og er í eign bændanna á Hoffelli.

Mjög líklega hefur staðið hof á þeim stað sem kirkjan er nú eða í nágrenni við hana ef aðeins er horft til nafn staðarins, Hoffell.

Lengi vel var svæðið í kringum Hoffell sér sókn og nefndist Hoffellssókn, það var svo árið 1894 sem sóknin sameinaðist Bjarnanessókn. Hoffell var einnig lengi vel kirkjustaður og annexía frá Bjarnanesi. Í skrá frá árinu 1200 er kirkjunnar í Hofelli getið sem hluti af Skálholtsbiskupsumdæmi. Þegar kirkjan var lögð niður til messugerðar árið 1894 keypti Jón Guðmundsson bóndi eignarhlut sóknarbænda í kirkjunni og leyfði henni að standa. Á árunum 1919 – 1920 var steypt utan um veggi kirkjunnar og þak, og kirkjan gerð vel stæðileg. Þó svo að kirkjan hafi verið lögð niður fóru kirkjulegar athafnir m.a. jarðarfarir þar fram og var þá oftast um að ræða fólk af næstu bæjum.

Hoffellskirkja3Viðurinn í kirkjunni fúnaði í gegnum áratugina á 20. öldinni og var svo komið að ekki var lengur hægt að bíða með nýja kirkju þegar komið var fram á 8. áratug síðustu aldar. Ný timburkirkja var því reist. Ættingjar, vinir og velunnendur bændanna á Hoffelli gáfu pening og vinnu sína við kirkjuna, og þegar kom að vígsludegi var kirkjan skuldlaus. Kirkjan, sem tekur um 45 manns í sæti, er öll klædd furupanel að innan, bæði loft og gólf. Vígsludagur nýju kirkjunnar var 11. ágúst 1981. Herra Sigurbjörn Einarsson vígði kirkjunna og var þetta hans síðasta embættisverk áður en hann lét af störfum sem biskup.

Hoffellkirkja2Í kirkjunni er að finna marga merka hluti. Altaristaflan er gefin af listamanninum Áka Gränz frá Njarðvík en þar má sjá vísun í nánasta umhverfi kirkjunnar eins og silfurbergið. Á altarinu er kross gerður úr silfurbergi unninn af Heiðveigu Guðlaugsdóttur en hún gerði einnig krosssaumsmyndina sem hangir yfir orgelinu. Útsaumuð mynd fyrir ofan stól við altarið var eitt sinn altaritafla kirkjunnar og er eftir Þóru Guðmundsdóttur sem og útsaumaðar sessur, bök og armar á stólnum undir myndinni. Ljósakrónan er úr gömlu kirkjunni sem og predikunarstólinn. Skírnarfonturinn er smíðaður af feðgunum Hlyni Kr. Halldórssyni og Halldóri Sigurðssyni frá Miðhúsum. Fonturinn er gerður úr efni sem nefnist Hvítviður og er hann 96 cm að hæð með kristallskálinni sem er sjálf skírnarskálin. Fonturinn er byggður utanum ferstrendasúlu og eiga súlurnar að minna á fjórar hendur sem halda uppi skálinni. Á fontnum má sjá tengingar við postulana tólf og þá ósk Jesú að lærisveinarnir ættu að skíra og gera allar þjóðir að lærisveinum sínum. Einnig er að finna dúfuna á fontnum og fangamark Jesú Krists sem og tilvitnun í Mattheusarguðspjall.

Síðustu ár og áratugi hafa guðsþjónustur í kirkjunni verið fáar og haldnar samráði við fjölskyldunar á Hoffellssvæðinu. Aðrar athafnir eins og skírnir, fermingar og brúðkaup eru framkvæmdar í kirkjunni og þá einnig í samráði við eigendur kirkjunnar. Þeim gamla sið að halda messu á jólum hefur verið viðhaldið og er kirkjugestum ávallt boðið í messukaffi að lokinni athöfn.

Fleiri myndir af Hoffellskirkju er að finna á myndasíðunni okkar sem er hér í flipunum að ofan eða á Fickr-síðunni okkar.