Stafafellskirkja

StafafellskirkjaEkki löngu eftir kristnitökuna árið 1000 mun kirkja hafa verið sett á Stafafelli. Kirkjan var helguð Maríu mey og því kölluð Maríukirkja. Það var ekki fyrr en þann 24. ágúst 1201 sem fyrstu heimildir um kirkjunar koma fram, en þá söng Guðmundur góði biskup sálumessu þar en frá þessu er getið í Sturlungu. Frá elstu máldögum kemur fram að Stafafellsjörð hafi verið mikil og góð jörð með miklum búpeningi. Kirkjan átti þónokkrar jarðir sem síðar urðu eign ríkisins með lagaákvæðum árið 1907. Kirkjan var endurbyggð á árunum 1866 – 1868 og var hún byggð úr timbri og grjóthlöðnum grunnim, í lok 19. aldar var þakið járnklætt.  Árið 1915 var kirkjan ásamt kirkjugarði afhent söfnuðinum til eignar en hafði þá verið í umsjá prestana sem sátu þar. Farið var í smáar viðgerðir á kirkjunni á fyrrihluta 20. aldar og var m.a. kórþil fjarlægt og predikunarstóll færður til árið 1928. Árið 1954 var keypt orgel í kirkjuna og árið 1960 var sett í hana upphitunartæki. Árið 1961 var svo farið í gagngerar endurbætur á kirkjunni að innan þar sem nýjir gluggar voru settir í kirkjuna, bekkir lagfærðir, veggir þiljaðir og kirkjan máluð. Myndirnar á predikunarstólnum voru skýrðar upp og stólinn málaður.

Frá árinu 1640 – 1779 hafa verið skráðar tíu vísitasíur, sjö frá biskupum og þrjár frá próföstum. Frá 1779 hefur úttektarsaga Stafafellsbrauðs verið götótt og er getið um 7 vísitasíur til ársins 1962.

Stafafellskirkja3Á árunum 1977 -1979 var rætt um endurbætur á kirkjunni. Henni hafði verið haldið við eins og hægt var en ljóst var að hana þurfti að endurnýja að stórum hluta. Eftir úttekt á kirkjunni kom í ljós að veggi þurfti að endurnýja að miklu leyti sem og hlaða nýjan grunn. Halldór „í Miðhúsum“ Sigurðsson var fenginn til að hafa yfirumsjón með verkinu í samstarfi við húsafriðunarnefnd. Árni Kjartansson arkitekt var svo faglegur ráðgjafi við endurbæturnar. Þegar kom að því að finna timbur til að klæða kirkjunnar var fenginn rekaviður frá sr. Sigmari á Torfastöðum á Langanesströnd. Viðurinn kom svo að Stafafelli fullunninn sumarið 1987. Þann 13. júlí 1988 hófst eiginleg vinna við sjálfa kirkjuna og stefnt var að endurbyggingin tæki tvö sumur. Þegar frumvinnu við húsið var lokið var húsið rétt af en það hafði skekkst í gegnum áratugina af vindálagi. Því næst var farið í að laga grunn kirkjunnar sem var gróthlaðinn. Kirkjunni var lyft upp og nýr grunnur hlaðinn en sú vinna hófst 25. júlí 1988. Grjótið sem notað var er gabbró og kom úr landi Hoffells í Nesjum. Ákveðið var að finna nýja dyrahellu og eftir þónokkra leit fannst hún mitt á milli Hvalnesbæjar og Víkur.

Sumarið 1989 var nánast öll vinnan innandyra. Ákveðið var að taka gólfið upp og einangra. Fjalirnar geymdar því þær voru notaðar aftur þegar einangrunni lauk. Í októbermánuði var kirkjan máluð að innan en áður hafði farið samtal 72 stundir í að fjarlægja gamla málningu af veggjnum. Málningameistari var Daníel Sigurðsson.

Stafafellskirkja2Í nóvember var farið að sjá í endan á endurbótunum. Í byrjun mánaðarins voru kirkjubekkir settir á sinn stað en var þá búið að bólstra bæði sæti og bök bekkjanna. Einnig var orgelinu komið fyrir á sinn stað en þegar farið var að grennslast eftir Biblíunni, söngsálmabókinni og sálmabókunum voru þær hvergi sjáanlegar. Þær virtust hafa týnst á meðan breytingarnar áttur sér stað. Leitað var á öllum mögulegum stöðum en aldrei fundust bækurnar, það var ekki fyrr en árið 1991 sem bækurnar fundust og voru þær þá á stað sem margsinnis hafði verið leitað á. Stafafellskirkja var svo endurvígð þann 12. nóvember 1989.

Í kirkjunni er að finna tvær altaristöflur. Gamla altaristaflan sem hangir nú á vegg inn í kirkju og er talin vera frá því 1670. Nýja altaristaflan er eftir Kristínu Stefánsdóttur á Hlíð. Skírnarfonturinn er eftir listamanninn Ríkharð Jónsson.

Það er nokkuð ljóst að kirkjan hefði aldrei fengið þær endurbætur sem á henni voru gerðar nema fyrir tilstilli allra þeirra sem gáfu vinnu sína við endurbæturnar. Það virðist vera að allir hafi gert það sem þeir gátu með bros á vör.

Fleiri myndir af Stafafellskirkju er að finna á myndasíðunni okkar sem er hér í flipunum að ofan eða á Fickr-síðunni okkar.