Bjarnaneskirkja við Laxá

Kirkjugarður Laxá
Minnisvarði á staðnum þar sem kirkjan stóð.

Gamla Bjarnaneskirkja við Bjarnanes var rifin um svipað leyti og kirkjan við Laxá var vígð eða árið 1911. Einar Erlendsson teiknaði kirkjuna eftir hugmynd Rögnvalds Ólafssonar. Yfirsmiður kirkjunnar var Jens Eyjólfsson. Kirkjan við Laxá var byggð úr steypu og með kjallara undir. Var kjallarinn notaður til samkomuhalds og mannfunda allt til ársins 1952. Enn í dag eru menn og konu að minnast á böllin og skemmtanirnar sem haldin voru í kjallaranum.

Bjarnaneskirkja við Laxá var á sínum tíma hið veglegasta hús. Það var að tilstuðlan kvenna í Nesjunum að stór og vegleg altaristafla var sett í kirkjuna árið 1922, sem gerð var af Jóni Þorleifssyni frá Hólum í Nesjum og árið 1923 kom orgel í kirkjuna. Bjarni Bjarnason á Brekkubæ var söngstjóri og organisti frá 1917 – 1976, fyrstu árin titlaður forsöngvari.

Almenn ánægja var með kirkjuna en fljótlega fór að bera á stórfelldum smíðagöllum. Steypan í kirkjunni var vond og auk þess lak turninn. Kirkjan var að mestu leyti endurbyggð á árunum 1922 – 1924 en viðgerðirnar þóttu ekki fullnægjandi. Það var svo árið 1956 að fulltrúi húsasmíðameistara ríkisins lýsti því yfir að kirkjan væri varla hæf til viðgerðar. Var þá ákveðið að ný kirkja skyldi rísa á þeim slóðum sem gamla kirkjan í Bjarnanesi stóð. Nokkrar athafnir fóru þar fram eftir það, síðast útför árið 1968. Kirkjan var rifin 1973.

Við kirkjuna var kirkjugarður og var hann vígður árið 1913 þegar Þórður Guðmundsson frá Horni var lagður til hvílu. Sá sem næstur var greftraður var sóknarpresturinn við kirkjuna sr. Benedikt Eyjólfsson. Garðurinn er enn mikið notaður í dag og má segja að hann sé síðasti hvíldarstaður flestra íbúa úr sveitinni.

Sóknarprestar:
Séra Benedikt Eyjólfsson 1906 – 1913
Séra Þórður Oddgeirsson 1914 – 1918
Séra Ólafur Stephensen 1919 – 1930
Séra Eiríkur Helgason 1931 – 1954
Séra Rögnvaldur Finnbogason 1954 – 1959
Séra Skarphéðinn Pétursson 1959 – 1974

Formenn sóknarnefndar og fjárhaldsmenn kirkjunnar:
Þórarinn Sigurðsson 1909 – 1920
Moritz Steinsson 1920 – 1923
Hákon Finnsson 1923 – 1929
Ragnar Gíslason 1929 – 1946
Sigjón Einarsson 1946 – 1957
Marteinn Einarsson 1957 – 1968

Sömu menn sinntu oftast einnig meðhjálparastörfum en aðrir komi þar líka við sögu, þeir voru kallaðir hringjarar. Það voru meðal annars feðgarnir frá Austurhóli Guðbjartur Þorláksson, sem þótti afburða hringjari og Guðmundur Guðbjartsson, en það kom í hans hlut að hringja klukkunum 17. júní 1944.