Sandfell
Sandfell er landnámsjörð. Þar bjó fyrst Þorgerður, ekkja Ásbjarnar Heyangurs-Bjarnarsonar, ásamt sonum sínum. Í Landnámu segir: “En það var mælt at kona skyldi eigi víðara nema land en leiða mætti kvígu tvævetra várlangan dag sólsetra í millim, hálfstalið naut ok haft vel. Því leiddi Þorgerðr kvígu sína undan Tóptafelli skammt frá Kvíá suðr ok í Kiðjaleit hjá Jökulsfelli fyrir vetan. Þorgerðr nam því land um allt Ingólfshöfðahverfi á millim Kvíár ok Jökulsár (Skeiðarár) ok bjó at Sandfelli.”
Fyrir árið 1362 var hálfkirkja í Sandfelli og höfuðkirkja á Rauðalæk. Þá hét byggðin Litlahérað. Eftir eldgosið í Öræfajökli var svæðið nefnt Öræfi og þegar það fór að byggjast upp að nýju, tók kirkjan í Sandfelli við hlutverki Rauðalækjarkirkju. Öræfajökull gaus aftur 1727 og stóð þá yfir messa í Sandfellskirkju.
Bæði 1362 og 1727 komu mikil hlaup úr Öræfajökli og ollu allmiklum skemmdum. Hlaupið 1727 lék Sandfell illa enda kom það báðum megin jarðarinnar. Í hlaupinu fórust þrjár manneskjur og fjöldi fjár. Í því hlaupi myndaðist Háalda sem er á milli Hofs og Sandfells og er hún friðlýst. Kirkjan gengdi hlutverki höfuðkirkju allt til ársins 1914 þegar hún var rifin og varð þá Hofskirkja sóknarkirkjar Öræfinga, en prestssetrið var enn í Sandfelli til ársins 1931. Síðast var jarðað í Sandfellskirkjugarði árið 1950.
Sennilega hefur bærinn í Sandfelli alltaf staðið á þeim stað sem Þorgerður valdi sér við upphafi byggðarinnar, en bærinn var endurreistur nokkrum sinnum, en rifinn að lokum 1974. Síðasti presturinn sem bjó í Sandfelli var sr. Eiríkur Helgason, en hann flutti að Bjarnanesi 1931.
Heimild: Vegagerðin
Fleiri myndir af Sandfelli er að finna á myndasíðunni okkar sem er hér í flipunum að ofan eða á Fickr-síðunni okkar.