FréttirHafnarsókn

Gjafir til Hafnarkirkju

Á jólatónleikum í Hafnarkirkju í desember var tilkynnt að Hirðingjarnir, sem versla með notaða vöru og gefa allan ágóða til ýmissa góðgerðamála, ætluðu að færa Hafnarkirkju 400.000 kr. að gjöf. Þessi stuðningur kemur sér vel því undanfarin ár hefur sóknarnefnd þurft að halda að sér höndum með ýmis verkefni vegna niðurskurðar og minni tekna. Þó var ekki komist hjá að lagfæra og mála Hafnarkirkju að utan í ár. Til að fjármagna það þurfti að afla sértekna og þess vegna kemur þessi styrkur sér vel. Það eru fleiri sem hafa styrkt framkvæmdina m.a. Skinney-Þinganes með verulegri upphæð. Sömuleiðis hafa margir einstaklingar lagt málefnum kirkjunnar lið með fjárframlögum og nokkrir velunnar færðu kirkjunni nýlega myndvarpa sem kostar 150.000 kr. Myndvarpinn kemur til með að nýtast vel í fermingarfræðslunni og sunnudagaskólanum.

Öllum þessum aðilum eru færðar miklar þakkir fyrir stuðning og velvild í garð kirkjunnar okkar.

Þess má geta í leiðinni að á næsta ári verða liðin 50 ár frá vígslu Hafnarkirkju og þá stefnir sóknarnefnd á að viðhaldi kirkjunnar utan- og innanhús verði lokið þá með sóma og sömuleiðis pípuorgelið hreinsað og slit lagað. Þetta eru kostnaðarsamar framkvæmdir sem þarf líka að afla sértekna til að hægt sé að ljúka þeim.

Sóknarnefnd Hafnarsóknar