FréttirKálfafellsstaðarsókn

Ólafsmessa 29.júlí 2020

Hin árlega Ólafsmessa verður haldin miðvikudagskvöldið 29.júlí kl 20. Verið öll velkomin í Kálfafellstaðarkirkju að hlusta á hugljúfa tónlist þar sem Þórdís Sævarsdóttir og Tara Mobee syngja á rólegum nótum valdar lagaperlur úr söngmöppum sínum við undirleik Vignis Þórs Stefánssonar.

Dagskráin hefst með stuttri helgistund sem sr. Ingimar Helgason leiðir. Einnig verður rifjuð upp sagan um völvuna á Kálfafellsstað og tengingar kirkjunnar við Ólaf helga Noregskonung. Tónleikarnir eru svo í beinu framhaldi og verða um klukkustund.

Að lokum er öllum boðið í gönguferð að völvuleiðinu undir Hellaklettum og rifjuð upp sagan af álögum völvunnar og áhrifum hennar á örlög og líf fólksins í Suðursveit í gegnum aldirnar ef veður leyfirTilvalið fyrir heimamenn að koma og njóta kvöldstundar í Kálfafellsstaðarkirkju og taka gesti með.


Aðgangur ókeypis. Allir velkomnir.

Viðburðurinn er unninn í nánu samstarfi við Þorbergssetur og er þeim bestu þakkir færðar.

Um tónlistarfólkið

Tara Mobee er ung og upprennandi söngkona og lagahöfundur og þykir vænt um hornfirskar rætur sínar. Tara er menntuð frá Tónlistarskólanum í Kópavogi, auk fjölda söng- og tónlistarnámskeiða, m.a. upptökutækni og raftónlist. Tara nam hörpuleik fyrstu árin og hefur síðan þá nýtt píanó- og gítarleik í sinni tónlistarsköpun, ásamt fleiri strengjahljóðfæri. Tara vakti snemma athygli fyrir tón- og lagasmíðar sínar og hefur gefið út eigin lög frá 16 ára aldri, eftir að hún sigraði söngvakeppni Kópavogs með frumsömdu lagi sínu ,,With you“. Tara tók þátt í Eurovision 2019 með laginu ,,Betri án þín“ og átti þar góðu gengi að fagna auk þess sem hún hefur gefið út eigin lög á íslandi, verið í 4 sæti íslenska vinsældarlistans og er í erlendu tónlistarsamstarfi í Sviss og Bandaríkjunum.

Tara Mobee

Þórdís Sævarsdóttir söngkona, kórstjóri og verkefnastjóri er menntuð frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, FÍH, Complete Vocal Technique og Tónskóla Þjóðkirkjunnar  auk þess að vera MA í Menningarstjórnun. Þórdís hefur starfað sem sóló-söngkona samhliða öðrum verkefnum, sungið með fjölda sönghópa, haldið tónleika, tekið að sér bakraddasöng á geislaplötum og verið viðburða- og verkefnastjóri á sviði lista, fræðslu og menningar.

Þórdís Sævarsdóttir

Vignir Þór Stefánsson píanóleikari er menntaður tónmenntakennari frá  Tónlistarskólanum í Reykjavík og með mastersgráðu í djasspíanóleik frá Konunglega Tónlistarháskólanum í Haag í Hollandi. Hann hefur verið virkur í íslensku tónlistarlífi og leikið sem píanó –  og hljómborðsleikari með söngvurum, sönghópum og kórum og hljómsveitum af öllum stærðum og gerðum. Hann hefur komið fram á geislaplötum og í sjónvarpi og leikið á hljómborð í fjölmörgum söngleikjum sem sýndir hafa verið í stærstu leikhúsum landsins. 

Vignir Þór Stefánsson